Á öndverðu ári 1919 hófust nokkrir verkstjórar í Reykjavík handa um að beita sér fyrir félagsstofnun. Hinn 12 febrúar efndu þeir til fundar í húsi K.F.U.M.,og boðuðu á þann fund alla verkstjóra í Reykjavík, er til náðist. Eigi hefur verið bókað, hverjir fundarboðendur voru, en heima hjá Bjarna Péturssyni verkstjóra, Þingholtsstræti 8, höfðu nokkrir verkstjórar komið saman í byrjun ársins og rætt um nauðsyn félagsstofnunar.